Japanska verðbréfamiðlunarfyrirtækið Mizuho Securities sagði frá því í gær að mistök við sölu á nýskráðu félagi myndu kosta fyrirtækið 27 milljarða jena, eða sem nemur 14,5 milljörðum íslenskra króna. Miðlari á vegum Mizuho seldi óvart 600.000 hluti í félaginu J-Com á verðinu 572.000 jen á hlut, en gangverð var 610.000 jen á hlut. Þetta gerðist nokkrum klukkustundum eftir að bréf í félaginu höfðu verið boðin út á markaði í fyrsta skipti. Verð á bréfum í J-Com féll að sjálfsögðu samstundis niður í 572.000 jen og neyddist Mizuho til að kaupa þau aftur á hærra verði.

Mistökin urðu til þess að gengi hlutabréfa í keppinautum Mizuho lækkaði, en fyrirtækið viðurkenndi ekki mistökin fyrr en eftir lokun markaða. Makoto Fakuda, forseti þess, sagði að þau ættu rætur sínar í einfaldri innsláttarvillu. Hann sagði að Mizuho hefði keypt aftur meirihluta bréfanna sem seld hefðu verið á þessu lága verði.

Mistökin þykja minna um margt á það þegar UBS seldi 610.000 hluti í auglýsingafyrirtækinu Dentsu árið 2001, á verðinu 16 jen á hlut. Villan kostaði fyrirtækið tugi milljóna dollara.