*

laugardagur, 20. júlí 2019
Erlent 7. febrúar 2011 08:32

Innstæður yfir 750.000 dönskum krónum ótryggðar

Þeir sem áttu yfir 750 þúsund danskar krónur í Amagerbanken fá ekki innstæður sínar til baka að fullu. Bankinn varð gjaldþrota í gær.

Magnús Halldórsson
Frá Kaupmannahöfn. Fall Amagerbanken er sagt koma sérstaklega illa við samfélagið á Amager sem tilheyrir Kaupmannahöfn.
AFP

Innstæður í dönskum bönkum eru nú tryggðar upp að 100.000 evrum, eða sem nemur rúmlega 15 milljónum króna. Afar ólíklegt er að talið að innstæðueigendur í Amagerbanken sem eiga yfir þessari upphæð, sem svarar til um 750 þúsund dönskum krónum, muni fá allt sitt til baka að fullu. Staða Amagerbanken var afar slæm þegar stjórnvöld tók yfir starfsemi bankans í gegnum stofnunina Finansiel Stabilitet í gær. Eigið fé var neikvætt um rúmlega 600 milljónum danskra króna, eða sem nemur yfir 12 milljörðum króna.

Á haustmánuðum 2008 björguðu dönsk stjórnvöld dönsku bankakerfi með því að samþykkja björgunarpakka sem kallaðist Banken 1 og var hann í gildi í tvö ár. Með honum voru allar innstæður ríkistryggðar og bönkunum auk þess útvegað laust fé í neyð. Sl. haust, eða í lok september, rann þessi pakki út. Í kjölfarið var regluverkinu breytt og viðtók endurbætt útgáfa af innstæðutryggingakerfi. Samkvæmt því eru innstæður tryggðar upp að 100 þúsund evrum eins og áður sagði. 

Í fréttaskýringu Politiken í dag kemur fram að fall Amagerbanken, 15. stærsta banka Danmerkur, sé harmsaga, ekki síst fyrir samfélagið á Amager. Þar hafi markaðshlutdeild hins rótgróna banka verið mikil. Þá segir í skýringunni að tap nokkurra þjóðkunnra auðkýfinga í Danmörku sé mikið. Í þeim hópi eru meðal annars Karsten Ree, sem lagt hefur bankanum ítrekað til hlutafé á sl. ári, og síðan Peter Engberg Jensen, forstjóri Nykredit bankans. Hann átti hlutabréf í bankanum sem nú eru töpuð.

Danskir skattgreiðendur munu tapa umtalsverðum peningum á falli Amagerbanken. Þar skiptir ríkisábyrgð upp á 13,2 milljarða danskra króna, um 280 milljarða króna, á lánum bankans sköpum. Auk þess veitti danska ríkið bankanum lán upp á 1,2 milljarða danskra króna. Óvíst er þó enn hversu mikið tapið verður en ljóst þykir að það verði umtalsvert.

Fréttaskýringu Politiken í dag um fall Amagerbanken má lesa hér.

Stikkorð: Amagerbanken