Innstæðutryggingakerfið innan aðildarríkja Evrópusambandsins ræður ekki við bankaáhlaup í löndunum. Það þarf að styrkja, að sögn fjármálasérfræðinga á meginlandi Evrópu. Í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar í dag kemur fram að grískir sparifjáreigendur hafi tekið út 34 milljarða evra af reikningum sínum á síðastliðnum tólf mánuðum.

Það jafngildir 17% af öllum innstæðum í bankakerfinu. Ekki er útilokað að það sama geti gerst í fleiri skuldsettum evruríkjum á borð við Spán, Ítalíu, Portúgal og á Írlandi. Ef bankaáhlaupið í löndunum fjórum verður eitthvað í líkingu við það sem gerðist í Argentínu á árunum 2000 til 2003 er hætt við að 340 milljarðar evra rjúki út af bankareikningum landanna og setji það bankakerfið á hliðina.

Fram kemur í fréttinni að innstæðukerfið sé gallað. "Þessi kerfi voru ekki hönnuð til takast á við algjört fall bankakerfis" segir Andrew Campell, prófessor í alþjóðlegri banka- og fjármálalögfræði við Háskólann í Leeds.

Innstæðutryggingakerifð á evrusvæðinu er vanbúið. Í Portúgal sé búið að leggja 1,4 milljarð inn á innstæðutryggingasjóð á móti tæplega 165 milljarða evra innstæðum og talið fullvíst að kerfið í heild muni ekki ráða við bankaáhlaup.