Innstæðutryggingakerfi, að minnsta kosti kerfi sem byggir á innstæðutryggingasjóði, hentar ekki fjármálakerfi eins og því íslenska þar sem aðeins eru þrír stórir bankar, að mati Thorsten Beck, hagfræðiprófessors við Tilburg háskóla í Hollandi. Beck var meðal ræðumanna á ráðstefnu um innstæðutryggingar, sem fer fram á föstudaginn í Hörpu.

Beck líkir slíku innstæðutryggingakerfi við aðstæður þar sem tryggingafélag tryggir þrjá bíla í landi þar sem aðeins er að finna þrjá bíla.

„Ef einhver bílanna lendir í slysi myndi það ganga af tryggingafélaginu dauðu, svo ekki sé talað um það ef tveir bílar lentu saman. Því er eins farið í litlu fjármálakerfi. Vandræði eins banka munu líklega hafa áhrif á hina tvo. Reynsla ríkja víðs vegar um heim sýnir að innstæðutryggingakerfi geta ekki hjálpað þegar um er að ræða alvarlegan kerfisvanda eða jafnvel kerfishrun. Í kerfi þar sem aðeins eru þrír bankar er fall hvers og eins nægilegt til að mynda alvarlegan kerfisvanda og innstæðutryggingakerfið er gagnslaust í slíkum tilvikum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.