Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir að vandamálið fyrir gjaldeyrismarkaðinn á Íslandi hafi verið hversu nafnvaxtamarkaðurinn hér á landi hafi verið lítill. Hér hafi flestar skuldbindingar verið verðtryggðar til langs tíma.

„Ef útlendingar ætla að taka stöðu í krónunni verða þeir að finna stutta nafnvaxtapappíra,“ segir hann. „Slíkar útgáfur eru litlar að vöxtum og hafa flestar fyrir löngu síðan verið fullnýttar til stöðutöku.

Af þeim sökum hefur bróðurparturinn af stöðutöku útlendinga með krónunni átt sér stað með skiptasamningum við íslensku bankana. Bankarnir hafa lítinn áhuga á slíkum samningum nú um stundir, af skiljanlegum ástæðum, og þá er þetta gert til að fjölga leiðunum fyrir stöðutöku í krónunni,“ segir Ásgeir.

Hann segir að vandinn við innstæðubréf felist í því að allar krónur sem þau afli fari inn í Seðlabankann, úr umferð.

„Innstæðubréfin þurrka upp bankakerfið, þannig að seljanleiki minnkar,“ segir Ásgeir.