Ný lög um innstæðutryggingu munu takmarka mjög þau innlán sem munu njóta innstæðuverndar. Þau kveða á um 100 þúsund evra hámarkstryggingu og krefjast þess að framlag viðskiptabanka í tryggingasjóð innstæðueigenda verði hækkað um marga milljarða króna á ári. Þá verður ákvæði í lögunum sem tekur það fram með skýrum hætti að engin ríkisábyrgð verði á tryggingasjóði innstæðueigenda. Þetta kemur fram í frumvarpi um innstæðutryggingar sem var lagt fram fyrir skemmstu. Frumvarpið hefur þegar farið í gegnum fyrstu umræðu á Alþingi og er nú til umfjöllunar í viðskiptanefnd. Stefnt er að því að afgreiða málið fyrir lok yfirstandandi þings. Nýju lögin eiga að taka gildi 1. janúar 2011.

Ríkisábyrgð enn í gildi

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að allsherjartrygging á innstæðum, sem er til staðar í formi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 3. febrúar 2009, verði áfram í gildi þrátt fyrir að nýju lögin taki gildi. „Hún verður afnumin í fyllingu tímans. Við ætlum ekki að viðhalda tryggingu á öllum innstæðum út í hið óendanlega. Hvenær hún verður afnumin byggir hins vegar á því að hér verði komið annað virkt innstæðukerfi og fjármálakerfi sem er að fullu búið að greiða úr sínum málum.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .