Starfsstéttin áhrifavaldar er tiltölulega ný af nálinni og hafa þeir sem starfa sem slíkir oft á tíðum verið umtalaðir meðal landsmanna. Einhverjum, þá kannski sérstaklega eldri kynslóðum, kann að þykja þessi starfsvettvangur framandi og spyrja sig hvernig það megi vera að fólk hafi atvinnu af því að birta efni í gegnum samfélagsmiðla. Spilið Frægð og Frami, sem er hugarsmíð þriggja ungra félaga frá Hafnarfirði, veitir einmitt áhugasömum landsmönnum innsýn í líf áhrifavalda.

„Upphaflega stóð til að spilið tengdist íslenskri menningu og þjóðfélagi í víðu samhengi en svo vatt hugmyndin upp á sig og endaði með því að snúast um áhrifavalda. Áhrifavaldar hafa um nokkurt skeið verið mjög áberandi í íslensku samfélagi og okkur þótti kjörið tækifæri að búa til skemmtilegt spil sem veitir innsýn í þeirra líf," segir Ingvar Haraldsson, einn forsprakka spilsins, en hinir forsprakkarnir eru þeir Jón Björn Árnason og Daníel Brynjólfsson. Grafíski hönnuðurinn Mateja Deigner sá svo um grafíska hönnun og útlit spilsins.

Þeir félagar kynntust í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði eftir að hafa verið saman í tónlistarráði skólans eitt skólaárið. Ingvar segir að hugmyndavinnan í kringum Frægð og Frama hafi hafist í byrjun síðasta árs og stóð upphaflega til að gefa út spil fyrir jólin 2019. Þeir hafi þó fljótt áttað sig á því að það væri full knappur tímarammi og því ákveðið að stefna heldur á útgáfu fyrir jólin 2020.

Stutt í keppnisskapið

Frægð og Frami er samvinnu- og samkeppnisspil þar sem hver leikmaður bregður sér í hlutverk áhrifavalds og keppir við (ó)vini sína um að vera fyrstur til að ná 20 þúsund fylgjendum. 3-6 leikmenn geta spilað spilið í einu. „Hver leikmaður velur sér tiltekinn áhrifavald sem við bjuggum til, en við fengum vini og fólk sem við þekkjum til að leika áhrifavaldana. Hver leikmaður byrjar með 4 þúsund fylgjendur og sá sem nær fyrstur að vinna sig upp í 20 þúsund fylgjendur vinnur spilið. Meðan á spilinu stendur takast leikmenn á við ýmsa viðburði sem kallast sviðsljós þar sem þeim gerist kleift að safna fylgjendum. Þátttakendur nota spjöld sem þeir fá á hendi og kallast Frægð og Frama spjöld til þess að freista þess að vinna hvern viðburð fyrir sig. Leikmenn geta svo bæði skemmt fyrir eða hjálpað hver öðrum meðan á spili stendur," útskýrir Ingvar.

Hann segir að mikil samkeppni sé milli leikmanna og spilið snúist í rauninni um að finna gott jafnvægi milli þess að eyðileggja fyrir öðrum og að vera í samvinnu við réttu aðilana. „Eins og góðu spili sæmir er stutt í keppnisskapið hjá leikmönnum og því getur skapast smá pirringur á milli þeirra meðan á spili stendur. En að spili loknu er fólk fljótt að verða vinir á nýjan leik," bætir hann kíminn við.

Ingvar segir að áætlanir geri ráð fyrir að spilið komi út um miðjan nóvember. Hann hvetur áhugasama til að fylgjast með Frægð og Frama á öllum helstu samfélagsmiðlum, en í hverri viku eru gefin út myndbönd til að kynna spilið og hvern áhrifavald fyrir sig. Þannig geti fólk kynnst Frægð og Frama betur áður en það prófar spilið í fyrsta sinn. Þá sé jafnframt hægt að tryggja sér eintak af spilinu á forsölutilboði í gegnum heimasíðu spilsins, fraegdogframi.is. Spilið lendi svo í helstu verslunum á allra næstu vikum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .