Hagfræðideild Háskóla Íslands mun láta nýnema gangast undir inntökupróf fyrir næsta skólaár. Prófið verður þreytt í júní og þeir sem ná lágmarkseinkuninni 5,0 öðlast rétt til að hefja nám við hagfræðideild. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag. Í henni segir að þeir sem nái ekki lágmarkseinkunn, en hafi stúdentspróf sem sé skilyrði til að taka inntökuprófið, hafi rétt til að skrá sig í aðrar deildir skólans sem sett hafa almennar inntökukröfur. Þá kemur fram að jafnframt sé verið að skoða að taka upp almennt inntökupróf fyrir nokkrar fleiri deildir skólans haustið 2013.