*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 14. janúar 2017 18:17

Innviðauppbygging og stöðugleiki

Ný ríkisstjórn leggur höfuðáherslu á uppbyggingu innviða, samkeppnishæfni í atvinnulífi og efnahagslegan stöðugleika.

Snorri Páll Gunnarsson

Til að gefa glögga mynd af stefnu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í efnahags- og atvinnumálum tók Viðskiptablaðið saman markmið og stefnumál hennar í mismunandi málaflokkum. Úttektin byggir á upplýsingum úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hún er hvorki ítarleg né tæmandi, enda er henni aðeins ætlað að varpa ljósi á megináherslur ríkisstjórnarinnar í hagstjórn, atvinnumálum og opinberum fjármálum næstu árin.

Í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er höfuðáhersla lögð á uppbyggingu innviða, samkeppnishæfni í atvinnulífi og efnahagslegan stöðugleika. Heilbrigðismál eru sett í forgang, en einnig á að efla velferðarkerfið, menntakerfið og samgöngukerfið. Í ríkisfjármálum er lögð áhersla á aðhald í ríkisrekstri, sölu eigna sem komust í eigu ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins og niðurgreiðslu skulda. Einnig er stefnt að því að endurskoða gengis- og peningamálastefnu landsins.

Á blaðamannafundi formanna ríkisstjórnarflokkanna í Gerðarsafni í Kópavogi mátti lesa úr orðum Bjarna Benediktssonar, nýs forsætisráðherra, að áherslumál nýrrar ríkisstjórnar væri annars vegar að viðhalda góðu efnahagsástandi og hins vegar að bæta innviði í íslensku hagkerfi og samfélagi.

„Þessi ríkisstjórn fær í vöggugjöf á margan hátt mjög góðar ytri aðstæður; sterka stöðu í efnahagsmálum, gott atvinnuástand í landinu og góðar horfur fram á við litið. En það skiptir hins vegar miklu máli – ekki síður þegar vel árar – að hafa skýra stefnu. Í stjórnarsáttmálanum birtast áherslur flokkanna þriggja í mörgum málaflokkum sem við teljum að tali mjög vel inn í þetta ástand og skipti máli til að þess að viðhalda þeim efnahagslega ávinningi sem við höfum byggt upp á undanförnum árum og halda áfram.

Þetta er stjórnarsáttmáli sem fjallar um stöðugleika til framtíðar. Við viljum byggja upp áframhaldandi jafnvægi í efnahagsmálum. Innviðauppbygging er kjarnaatriði í stjórnarsáttmálanum – það er sama hvort að litið sé til samgöngumála, heilbrigðismála, menntamála eða nýrra sviða sem við Íslendingar viljum að bætist við flóru atvinnulífsins til framtíðar litið,“ sagði Bjarni. „Það má ekki gera lítið úr því hversu mikil áskorun það getur verið fyrir stjórnvöld hvers tíma að taka við sterkri stöðu í efnahagsmálum. Það er ekki sjálfgefið að því sé hægt að viðhalda. En okkar áherslur, til dæmis í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt, munu miða að því að viðhalda þeim árangri og hugsa til langrar framtíðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.