Rekstur Icelandair Group gengur áfram vel. Stjórnendur og greiningaraðilar eru sammála um að uppbygging innviða, eða skortur þar á, geti staðið frekari vexti fyrir þrifum.

Þó að tekjur Icelandair Group á 2. ársfjórðungi 2015 hafi verið eilítið lægri en á sama fjórðungi fyrir ári síðan, 294,2 millj­ ónir dala borið saman við 297,8 milljónir dala, var uppgjörið engu að síður mjög gott. „EBITDA framlegð talin í dollurum hefur ekki verið hærri og framlegðin er í prósentum einnig í methæðum. Það þarf að taka tillit til þess að leigukostnaður hefur minnkað og er það strategísk ákvörðun hjá Icelandair að eiga í stað þess að leigja, sem er að skila sér,“ segir Ragnar Benediktsson hjá IFS greiningu í samtali við Viðskiptablað­ið. „Allar margínur eru upp hjá félaginu og eru í mörgum tilfellum vel yfir margínum evrópskra flugfélaga,“ bætir hann við.

EBITDAR á fjórðungnum var 59,1 millj­ ón dala en var sem dæmi 54,6 milljónir dala á sama fjórðungi 2013. Í prósentum talið er EBITDAR nú örlítið lægra en 2013, eða sem nemur 0,5%.

Ekki nóg að stækka bara flugvelli

Stjórnendur Icelandair Group hafa undanfarna mánuði gjarnan bent á að þeir hafi vaxandi áhyggjur af uppbyggingu innviða hér á landi, til dæmis á Keflavíkurflugvelli.

Spurður hvort þessar áhyggjur séu á rökum reistar segir Ragnar: „Já, ef spár um fjölgun ferðamanna rætast þá hlýtur að fara að vanta fólk með sérfræðiþekkingu á ferðamönnum. Á fjárfestadegi Icelandair kom í ljós að félagið ætlar sér að ná í „betur borgandi kúnna“. Maður veltir því fyrir sér hvort næg þekking sé til staðar á Íslandi til að þjónusta þann kúnnahóp.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Úr kauphöllinni, sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .