Innviðir íslensk samfélags eru með þeim bestu í heimi, samkvæmt könnun Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum). Þegar spurt er um samgöngur, fjarskipti og orkumál er Ísland í 7. sæti af þeim 142 löndum sem könnunin nær til. Í efstu sætunum eru Sviss, Singapúr og Frakkland.

Ráðið birti nýverið skýrslu um samkeppnishæfni ríkja. Þegar spurt er um traust almennings til stjórnmálamanna lendir Ísland í 58. sæti. Um vernd eignarétts er Ísland í 35. sæti. Þar eru Finnland, Sviss og Singapúr efst á blaði. Eignaréttur er minnst metinn í Venesúela, samkvæmt könnuninni.

Skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru í 134. sæti af 142 ríkjum á árinu 2010. Aðeins átta ríki voru því með verri skuldastöðu en Ísland. Verst stödd eru Grikkland og Japan.

Ísland kemur einna verst út þegar litið er til fjárhagsstöðu banka. Þar er Ísland í 140. sæti, fyrir ofan Úkraínu og Írland. Efst er Kanada, þvi næst Suður-Afríka, Panama og Ástralía.