Fjárfestingafélagið Insolidum ehf., sem er í eigu Daggar Pálsdóttur, lögmanns og varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Ágústar Páls Ólafssonar, verður tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.

Fjárfestingabankinn Saga Capital krafðist þess að bú Insolidum yrði tekið til gjaldþrotaskipta vegna gjaldfallinnar skuldar Insolidum til bankans.

Skuld Insoldium hljóðaði upp á 334 milljónir króna að mati Saga Capital. Sú skuld er tilkomin vegna láns sem Insolidum hafði fengið hjá bankanum til kaupa á stofnfjárbréfum í SPRON.

Saga Capital hafði áður farið fram á öll hlutabréf í Insolidum vegna skuldarinnar en á það féllust héraðsdómur og Hæstiréttur ekki. Því var þessi leið farin af hálfu Saga Capaital.

Hér má sjá úrskurð héraðsdóms.