Hlutabréf í breska leikjafyrirtækinu Inspired Gaming Group, þar sem FL Group er stærsti hluthafinn, hækkuðu um 14%  eftir að félagið birti ársuppgjör í morgun. Það er greiningardeild Landsbankans sem greinir frá.

"Gengi bréfanna hefur fallið um 30% frá því að FL Group sleit viðræðum við stjórn þess um mögulega yfirtöku á félaginu rétt fyrir jól. FL og stjórnendur lýstu því hins vegar yfir að það væri sameiginlegur vilji væri fyrir hendi að efla fyrirtækið áfram. Rætt hafði verið um yfirtökuverð upp á 385 pens á hlut ef formlegt tilboð hefði verið lagt fram. Í dag kostar einn hlutur um 185 pens," segir greiningardeildin.

Endurnýjar samning við William Hill

Uppgjörið nær yfir fyrsta heila starfsár Inspired, eftir að það var skráð AIM-markaðinn í Lundúnum, segir greíningardeildin, en því lauk í lok september.

Hagnaður fyrir skatta nam 3,8 milljónum punda en velta 166,3 milljónum punda. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 22,1 milljón punda.

"Meðal þess helsta sem gerst hefur á núverandi starfsári er að Inspired hefur endurnýjað samstarfssamning við veðmangarann William Hill til næstu fjögurra ára. Reksturinn á fyrsta ársfjórðungi hefur verið ágætur að sögn forsvarsmanna félagsins þótt reykingabann á breskum ölstöfum hafi dregið úr spilakassaveltu sem eru víða á kráum," segir greiningardeildin.