Auglýsingastofur Inspired by Iceland herferðarinnar hlutu í gær silfurverðlaun The Account Planning Group í Bretlandi fyrir hugmyndaríka stefnumörkun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslensku auglýsingastofunni sem ásamt Brooklyn Brothers í London önnuðust útfærslu Inspired by Iceland herferðarinnar. Herferðin hlaut nýlega gullverðlaun Euro Effie fyrir glæsilegan árangur og var þar áður tilnefnd til Global Effie auglýsingaverðlaunanna.

The Account Planning Group eru bresk samtök skipuleggjenda markaðsherferða, með 900 auglýsingastofur og markaðsfyrirtæki innan sinna vébanda. APG veitir árlega hin eftirsóttu „APG Creative Strategy Awards“ fyrir hugmyndaríka stefnumörkun auglýsinga- og markaðsherferða.


„APG verðlaunin falla venjulega í skaut stærstu auglýsenda og auglýsingastofa, sem hafa gríðarlega mikla fjármuni til að spila úr,“ segir George Bryant hjá Brooklyn Brothers í tilkynningunni, en hann tók við verðlaununum fyrir hönd auglýsingastofanna.

„Við vorum að keppa við þekktustu auglýsingastofur heims, á borð við AMV BBDO, Mother, AKQA og Saatchi & Saatchi. Við vorum að keppa við auglýsendur á borð við Fiat, Nike, Ikea, Heineken og Stella Artois. Í því ljósi er árangur Inspired by Iceland herferðarinnar einstakur. Íslenska auglýsingastofan og Brooklyn Brothers eru kannski ekki litlar, en ansi smáar í þessum samanburði. Með góðum hugmyndum, góðri skipulagningu, góðri nýtingu fjármuna og einstaklega góðri samvinnu náðum við hins vegar þeim góða árangri sem verið er að verðlauna okkur fyrir.“