„Þetta er einn stærsti heiður sem auglýsingastofa getur fengið fyrir sína vinnu,“ segir Kristján Schram hjá Íslensku auglýsingastofunni sem sá um framleiðslu efnis fyrir haustátak markaðsherferðarinnar Inspired by Iceland. Herferðin hlaup Ljónið, eftirsótt gullverðlaun auglýsingahátíðarinnar í Cannes, fyrir besta notkun almenningstengsla í auglýsingaherferð á síðasta ári. Tilkynnt var um verðlaunin í dag.

Auglýsingahátíðin í Cannes er stærsta fagverðlaunahátíð auglýsingabransans, en hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 1954. Um 30.000 auglýsingar og herferðir taka þátt í  hátíðinni.

Verðlaunin eru veitt fyrir heimboð Íslendinga, sem voru liður í haustátaki Inspired by Iceland. Íslendingar voru hvattir til þess að mynda persónuleg kynni við ferðamenn. Fjölmargir Íslendingar tóku þátt í verkefninu með því að bjóða erlendum ferðamönnum að sækja sig heim, eða taka þátt í daglegu lífi Íslendinga með öðrum hætti. Þeirra á meðal voru Jón Gnarr Borgarstjóri Reykjavíkur og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, auk forsetahjónanna sem buðu upp á pönnukökur á Bessastöðum.

Íslandsstofa annast framkvæmd verkefnisins, sem er undir stjórn iðnaðarráðuneytisins, fjármálaráðuneytis, Icelandair, Reykjavíkurborgar, Samtaka ferðaþjónstunnar, Iceland Express, ISAVIA, Samtaka verslunar og þjónustu og Landsbankans. Rúmlega 130 fyrirtæki eru þátttakendur í verkefninu.