Hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud, sem stendur að baki skýjahugbúnaðinum Qstack, og Intel tilkynntu í dag um að eftirlitskerfið Intel Data Center Manager (DMC) mun samþættast við Qstack hugbúnaðinn frá og með júní 2017. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

„Intel, sem er einn stærsti örgjörvaframleiðandi í heimi, hannaði DCM með það að markmiði að bjóða viðskiptavinum sínum upp á að mæla og birta orkunotkun og hitamyndun gagnavera í rauntíma með því að nota netþjónana sem nema til að birta mun nákvæmari raun stöðu en áður. Með Intel DCM munu notendur Qstack sjá þessa raunstöðu og geta brugðist strax við óvæntum atburðum með því t.d að færa til sýndavélar og gáma (containers), sem auðveldar að meta kostnaðar- og stækkunarþarfir,“ segir þar.

Haft er eftir Jónsa Stefánssyni, forstjóra Greenqloud: „Ég er virkilega spenntur fyrir samstarfi okkar við Intel. DCM samþættist vel að Qstack hugmyndafræðinni og bætir við þá hagkvæmni, yfirsýn og stjórnun sem þú nærð fram með Qstack.” Með Qstack geta fyrirtæki innleitt og stjórnað umfangsmiklum umhverfum auk þess sem samræmt notendavefviðmót veitir tæknideildum aukna yfirumsjón yfir tölvukerfi fyrirtækja. Markmið Qstack er að einfalda og straumlínulaga rekstur umhverfa auk þess að bjóða sjálfsafgreiðsluviðmót sem flýtir úthlutun tölvuþjóna og sýndarvéla og eykur mikið sveigjanleika við daglegt utanumhald og rekstur. Qstack hjálpar fyrirtækjum við að koma upp og reka sveigjanleg skýjaumhverfi þar sem kostir einka- og opinna skýja nýtast að fullu.“

Jeffrey Klaus, yfirmaður DCM lausna hjá Intel skrifar: „Samþætting Intel DCM og Qstack aðlagast fullkomlega því markmiði okkar að aðstoða rekstraraðila gagnavera og fyrirtæki við að hafa eftirlit og umsjón með orkunotkun á þeirra starfsstöðvum. Gefur þetta aðilum kost á að hafa aukið eftirlit með kælibúnaði og hagkvæmari orkunýtingu, sem leiðir til umtalsverðrar lækkunar á kostnaði.”