Örgjörvaframleiðandinn Intel hefur náð dómsátt við hóp fólks sem höfðað hafði mál gegn fyrirtækinu vegna markaðssetningar á Pentium 4 örgjörvum sem seldir voru á tímabilinu 20. nóvember 2000 og 30. júní 2002. Héldu viðskiptavinirnir fyrrverandi því fram að Intel hefði svindlað á viðmiðunarprófum til að láta líta svo út að Pentium 4 örgjörvinn væri hraðari en Athlon örgjörvi keppinautarins AMD.

Intel mun greiða hverjum viðskiptavini 15 dali, andvirði um 1.800 króna. Viðkomandi verður að sverja þess eið að hafa keypt tölvu með þessum tiltekna örgjörva í, en ekki er gerð krafa um að viðskiptavinurinn hafi geymt kvittun fyrir kaupunum. Þá mun Intel einnig láta fjórar milljónir dala af hendi rakna til menntasjóðs.

Áhugavert er að sáttin, sem tekur aðeins til viðskiptavina í Bandaríkjunum, nær ekki yfir Illinois-ríki. Íbúar Illinois eiga því ekki rétt á greiðslunni þótt þeir hafi keypt tölvu með örgjörvanum.