Alþjóðlega dagblaðið International Herald Tribune, sem selt er í um 160 ríkjum, mun skipta um nafn í haust og taka upp nafn móðurblaðsins The New York Times. Blaðið, sem stofnað var árið 1887 sem Evrópuútgáfa bandaríska blaðsins New York Herald, hefur nokkrum sinnum skipt um nafn frá þeim tíma. Undanfarin 40 ár hefur það þó borið nafnið sem nú á að skipta út fyrir The International New York Times.

New York Times og Herald Tribune hafa lengi deilt starfsfólki og fréttariturum og er nafnabreytingin hluti af endurskipulagningu rekstrar fyrrnefnda blaðsins. Markmiðið er að styrkja ímynd New York Times og fjölga erlendum lesendum blaðsins. Þá stendur til að móðurfélagið selji dagblaðið Boston Globe.

Um tíma átti New York Times helmingshlut í Herald Tribune á móti Washington Post en keypti allt blaðið árið 2003.