Evrópusambandið hefur kallað eftir því að streymisveitur á borð við Netflix og Youtube takmarki þjónustu sína svo fjarskiptakerfi Evrópuríkja geti sinnt þeim tugum milljóna sem vinna heima þessa dagana.

Fjarskiptakerfi landanna er hönnuð til að halda í við aukna notkun heima við á kvöldin en kunna hugsanlega ekki að þola aukið álag allan daginn þar sem nám, vinna og afþreying fjölskyldna fer nú að stórum hluta fram í gegnum netið.

Fjarskiptafélög hafa þar til nú verið þess fullviss að innviðir þeirra þoli hið aukna álag. Í gær gaf Thierry Breton, einn af þeirra sem stýrir stafrænni stefnumótun hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hins vegar út að streymisveitur og fjarskiptafélög bæru bæði ábyrgð á því að hægt væri að leysa úr stöðunni. Meðal annars er óskað er eftir því að streymisveitur hætti að bjóða upp á háskerpu og haldi sig við lægri upplausn.

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, lét hafa eftir sér í gær að það væri áskorun að halda í við aukna notkun, sem væri mun meiri en í toppinum sem myndist árlega gamlárskvöld. Til að mynda hefði fjöldi símtala í gegnum WhatsApp og Messenger tvöfaldast.