Internetsamband verður ókeypis í Flugstöð Leifs Eiríkssonar innan nokkurra vikna. Til stóð að bjóða þessa þjónustu ókeypis í vor en af því varð ekki þar sem uppsetningin reyndist flóknari en gert var ráð fyrir. Frá þessu greinir fréttavefurinn Túristi.is.

Þessi þjónusta er nú orðin nokkuð almenn hjá nágrannaþjóðum okkar en um áttatíu norrænar flugstöðvar bjóða upp á netsamband án endurgjalds. Það er því ekki seinna vænna að Ísland sláist í hópinn enda er ferðamönnum títtrætt um hve auðveldur aðgangur er að ókeypis interneti á kaffihúsum og veitingahúsum víðsvegar um landið.