Ungversk stjórnvöld hyggjast leggja skatt á gagnaflutning í gegnum netið, en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram á ungverska þinginu. Reuters greinir frá málinu.

Verði frumvarpið að lögum gæti það haft veruleg áhrif á rekstur netfyrirtækja og viðskiptavini þeirra. Frumvarpið felur í sér að hver netnotandi skuli greiða 150 forintur, sem jafngildir um 70 íslenskum krónum, fyrir hvert gígabæt sem hlaðið er niður.

Mikhaly Varga, efnahagsráðherra Ungverjalands, hefur varið frumvarpið og segir að verði það að lögum muni það skila ríkissjóði tekjum upp á 20 milljarða forinta.

Nokkrum klukkustundum eftir að fréttir um frumvarpið bárust út höfðu yfir 100 þúsund manns skráð sig í hóp á Facebook til þess að mótmæla lagasetningunni. Þá hafa þúsundir boðað komu sína á mótmæli sem fyrirhuguð eru fyrir utan efnahagsráðuneyti landsins næstkomandi sunnudag.