Samkvæmt upplýsingum danskra fjölmiðla er talið að kaupverð verslunarrisans Intersport Danmark A/S geti verið nálægt einum milljarði danskra króna, eða um 11 milljörðum króna. Engin staðfest tala hefur komið frá keupendum eða seljendum.

Samkvæmt vefmiðlinum Business.dk hefur Intersportkeðjan verið að skila á milli 4% og 10% EBITDA framlegð síðustu fimm árin. EBIT í fyrra mun hafa numið 100 milljónum danskra króna. Á sama tíma hefur keðjan opnað margar nýjar verslanir og aukið veltu sína um 50% og nam velta félagsins um það bil einum milljarði danskra króna á síðasta ári.

Hluthafar Intersport Danmark A/S hafa nú samþykkt tilboð íslensks fjárfestahóps í félagið. Tilboðið er tvískipt, annars vegar er boðið í Intersport-fyrirtækið og hins vegar í verslanir félagsins. 100% hluthafa í fyrirtækinu samþykktu tilboðið og 89% hluthafa í verslunarrekstrinum. Allt síðan 1992 hefur félagið verið rekið sem verslunarsamlag í eigu verslunareigenda.


Intersport Danmark A/S er í eigu 44 verslunarmanna sem eiga samtals 84 verslanir undir nafni Intersport. Hjá þeim vinna um það bil 650 starfsmenn. Áætlanir eru um að opna fjórar nýjar verslanir á þessu ári. Á heimsvísu eru reknar um það bil 4.500 verslanir undir nafni Intersports.

Fjárfestahópurinn samanstendur af fjárfestingarsjóðnum Kcaj og Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka. Kcaj er fjárfestingarsjóður í umsjón fjárfestingarfélagsins Arev sem er að stærstum hluta í eigu Jóns Schevings Thorsteinssonar. Kcaj hefur fjárfest töluvert í smásöluverslun í Bretlandi og meðal eigenda eru Máttur og JST Holding ehf.