Bandaríska kvikmyndin The Interview hefur verið sótt af netinu í fleiri en tvær milljónir skipta á einungis fjórum dögum. Sony á útgáfuréttinn að kvikmyndinni og hefur netútgáfa hennar aflað fyrirtækinu meira en 15 milljónir bandaríkjadala á þessu stutta tímabili. BBC News greinir frá þessu.

Myndin fjallar um áætlun Bandaríkjamanna til þess að ráða Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, af dögum. Aldrei hefur einni kvikmynd frá Sony verið hlaðið niður af netinu jafnoft og The Interview, en kvikmyndin hefur fengið talsverða umfjöllun fjölmiðla eftir að fram kom að fyrirtækið hefði hætt við sýningu myndarinnar vegna hótana. Síðar var hins vegar ákveðið að gefa myndina út í völdum kvikmyndahúsum og á netinu.

Kvikmyndin kostaði Sony 44 milljónir dala í framleiðslu og hefur netútgáfan ein því skilað fyrirtækinu um þriðjungi kostnaðarins til baka á einungis fjórum dögum. Þá þénaði kvikmyndin 2 milljónir dala í bandarískum kvikmyndahúsum um síðustu helgi og er hún því á góðri leið með að svara kostnaði fyrirtækisins og gott betur.