Bandarísk stjórnvöld fylgjast með söluferli Icelandic Group og vilja vita hvers vegna bandarískum fjárfestingasjóðum er ekki gefið tækifæri til að bjóða í félagið, að því er fréttamiðillinn IntraFish hefur eftir heimildum.

Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum, og sagt er frá í frétt IntraFish, á Framtakssjóður Íslands í viðræðum við evrópska fjárfestingasjóðinn Triton um sölu á félaginu. Ekki verður rætt við aðra mögulega fjárfesta á meðan. Segir að tveir bandarískir sjóðir séu óánægðir með að vera ekki hleypt að samningaborðinu. Sjóðirnir tveir starfa saman samkvæmt fréttinni.

Samkvæmt heimildum IntraFish er tilboð bandarísku sjóðanna hærra en það sem kanadíska félagið High Liner Foods bauð. High Liner Foods hefur einnig sýnt áhuga á félaginu og kvartað undan því að tilboð þeirra sé ekki skoðað. Segir að fjárfestingarsjóðirnir tveir hafi sett sig í samband við bandaríska viðskiptaráðuneytið (e. U.S. Department of Commerce) vegna málsins. Í kjölfarið var haft samband við íslenska stjórnmálamenn, sem hafa opinberlega mótmælt lokuðu söluferli á milli FSÍ og Triton.

Þá er sagt að viðskiptaráðuneytið fari fram á að Samkeppniseftirlitið hérlendis grípi inn í og fari fram á að Icelandic verði sett í opið söluferli. Engin formleg beiðni um slíkt hefur þó verið send, að því er segir í frétt IntraFish. Segir einnig að bandarísk stjórnvöld hafi ekki einungis áhyggjur af málinu vegna fjárfestingasjóðanna heldur einnig vegna þeirra starfa sem eru undir í Virginíu. Þar er Icelandic USA staðsett. Heimildarmaður IntraFish segir að ef viðræður standi yfir lengur en til 31. janúar, sem er í dag, muni bandarísku sjóðirnir tveir fara fram á inngrip stjórnvalda.