*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 13. apríl 2021 13:29

„Introvert“ sem sigraðist á feimninni

Frumkvöðullinn Hjálmar Gíslason segir flesta efast um sjálfa sig að einhverju marki. Fólk sé bara misgott í að fela það.

Ritstjórn
Hjálmar Gíslason, stofnandi Grid.
Haraldur Guðjónsson

Hjálmar Gíslason, frumkvöðull og stofnandi Grid, blæs fólki sem upplifir „impostor syndrom" byr í brjóst í stöðuuppfærslu á Facebook. Fer Hjálmar yfir eigin reynslu og segir að þar sem hann sé „introvert" sé hegðun hans innan um aðra lærð og mjög meðvituð.

„Þegar ég var unglingur var ég svo feiminn að ég hrökklaðist út úr búðum ef afgreiðslufólk bauðst til að aðstoða mig - og leið almennt berskjölduðum innan um annað fólk. Auðvitað mismikið og smám saman verður maður aðeins öruggari innan um fólkið í sínum þrengri hring," segir í færslu Hjálmars.

Því næst beinir hann sjónum að því er hann tók fyrstu skrefinn sem frumkvöðull um tvítugt, eða þegar hann „stofnaði nördafyrirtæki með nördavinum sínum" líkt og hann orðar það.

„Þegar ég var 24 ára þurfti ég í fyrsta sinn að halda erindi fyrir framan fullan sal af fólki. Þetta var alþjóðleg ráðstefna, haldin í San José í Kaliforníu. Tækifærið var frábært og mér fannst tilhugsunin um að koma hugmyndum mínum á framfæri við leiðandi fólk á mínu sviði heillandi, svo það var aldrei spurning að slá til.

20 mínútum áður en ég átti að stíga á svið lá ég á bakinu á rúmi inni á herberginu mínu á ráðstefnuhótelinu og reyndi meðvitað að anda djúpt og hægt. Ég var sveittur, mér var flökurt og mér leið eins og það myndi líða yfir mig ef ég myndi standa upp," segir í færslu Hjálmars.

Rifjar Hjálmar upp hve stressaður hann hafi verið fyrir því að halda erindi fyrir 250 manns og í byrjun erindis hafi það varla farið framhjá nokkrum hve taugaóstyrkur hann var.

„En ég var vel undirbúinn og ég var að tala um hluti sem voru mér bæði hugleiknir og tamir þannig að fljótlega fór ég að gleyma mér. Fór með vel æfðan fyrirlesturinn og var meira að segja aðeins farinn að "improvise"-a undir lokin. Þegar fyrirlesturinn var búinn sá ég salinn aftur og flýtti mér niður af sviði og út úr salnum svo að það færi nú ekki einhver að tala við mig!"

Næstum allir efist um sjálfan sig í einhverju marki

Í dag fari hann létt með að tala fyrir framan stóra hópa af ókunnugu fólki, jafnvel óundirbúið. Því meiri sem undirbúningurinn sé þeim mun betri verði þó frammistaðan.

„Auðvitað getur maður alltaf bætt sig og mín framkoma er langt í frá fullkomin, en það er samt sem áður þannig að hæfileikar til að koma fram fyrir framan smærri og stærri hópa af fólki, koma flóknum hugmyndum á framfæri á tiltölulega skiljanlegan hátt með blöndu af hófsemi og sannfæringu er alger forsenda þess að ég hef náð mjög mörgum af þeim markmiðum sem ég hef sett mér í lífinu," segir í Facebook færslu Hjálmars. Þannig hafi þessi lærða og mjög meðvitaða hegðun „introvertsins" orðið einn af hans helstu styrkleikum.

„Ég deili þessu hér vegna þess að ég rekst svo oft á það, jafnvel hjá sumu hæfileikaríkasta og frábærasta fólki sem ég þekki að það upplifir "impostor syndrom". Það efast um að sitt framlag eigi erindi, verður afar meðvitað um fáeina hnökra í annars stórkostlegri frammistöðu, dregur úr jákvæðri endurgjöf sem það fær og vex í augum minnsta gagnrýni," útskýrir Hjálmar. Í lokinn segir hann að ef ofangreind lýsing eigi við þann sem lesi færsluna, sé hin sami alls ekki einn. Næstum öllum líði svona að einhverju marki - sumir séu bara betri í að fela það en aðrir.

 

Ég er introvert. Öll mín hegðun innan um aðra er lærð og mjög meðvituð. Þegar ég var unglingur var ég svo feiminn að ég...

Posted by Hjalmar Gislason on Tuesday, April 13, 2021

 

Stikkorð: Hjálmar Gíslason