Til stendur að innheimtuþjónustan Intrum, Lögheimtan og Pacta málflutningur og ráðgjöf muni innan skamms opna útibú með formlegum hætti við Hafnarstræti 1 á Ísafirði. Þetta kemur fram í frétt á vef Bæjarins besta á Ísafirði.

Þar kemur fram að fyrirtækin hafa óskað eftir því við Ísafjarðarbæ að tekið verði upp samstarf við bæinn, svo sem á sviði innheimtu vanskilakrafna og almennrar lögfræðiráðgjafar. Bæjarráð hefur fjallað um boð Intrum og fól bæjarstjóra að ræða við aðila fyrirtækisins. Intrum Justitia er alþjóðleg innheimtuþjónusta sem rekur fimm útibú á Íslandi, í Reykjavík, á Akureyri, Egilstöðum, Suðurlandi og Suðurnesjum. Aðaleigendur Intrum á Íslandi eru KB-banki, Landsbanki Íslands, Sparisjóðirnir og Intrum Justitia.