Íslenska lyfjafyrirtækið Invent Farma ehf. og indverski lyfjaframleiðandinn Strides Arcolab Ltd. hafa stofnað tvö ný samstarfsfyrirtæki sem eru í jafnri eigu félaganna tveggja. Annars vegar er um að ræða Domac Laboratories sem fyrst um sinn mun leggja áherslu á að þróa og selja lyf til sjúkrastofnana á Spáni og í Portúgal. Hins vegar er um að ræða eignarhaldsfélagið Plus Farma á Íslandi sem nýlega festi kaup á lyfjafyrirtækinu Farma Plus með aðsetur í Osló í Noregi.

Í fréttatilkynningu kemur fram að á síðustu árum hefur Farma Plus verið vaxandi aðili í sölu á lyfjum til sjúkrahúsa á Norðurlöndum. Invent Farma og Strides Arcolab telja að með kaupunum á Farma Plus í Noregi skapist mikilvægt tækifæri til að ná sterkri stöðu á markaði fyrir lyf fyrir sjúkrahús í Skandinavíu.

Invent Farma ehf., sem er í eigu íslenskra og spænskra fjárfesta, framleiðir lyf í Barcelona á Spáni og starfa um 300 manns hjá fyrirtækinu. Invent Farma þróar, framleiðir og markaðssetur virk lyfjaefni og fullbúin samheitalyf og á félagið í dag yfir 70 framleiðslueinkaleyfi. Invent Farma selur framleiðslu sína um allan heim, ýmis beint eða fyrir milligöngu fjölda samstarfsaðila. Fyrirtækið rekur lyfjaþróunarsetur í Barcelona, Mumbai á Indlandi og í Reykjavík, auk lyfjaefnaverksmiðju og lyfjaverksmiðju í Barcelona. Þá er Invent Farma meirihlutaeigandi í Lyfjaveri ehf. sem rekur lyfsölu og er brautryðjandi í tölvustýrðri lyfjaskömmtun á Íslandi.

Strides Arcolab Ltd. er meðal stærstu útflytjenda á skráðum samheitalyfjum og efnum til lyfjagerðar á Indlandi og einn af fimm stærstu framleiðendum í heiminum á mjúkum hylkjum til lyfjagerðar. Fyrirtækið rekur 14 lyfjaverksmiðjur í Bandaríkjunum, Brasilíu, Mexíkó, Ítalíu, Póllandi, Singapore og á Indlandi og er með skráð lyf í 37 löndum víðsvegar um heiminn. Um 1700 manns starfa hjá Strides á heimsvísu. Strides Acrolab Ltd. er skráð fyrirtæki á indverska hlutabréfamarkaðinum.

Arun Kumar forstjóri Strides segir að samstarfið við Invent Farma um Domac Laboratories falli mjög vel að stefnu fyrirtækisins: ?Í hæfni Strides til þróunar og sérhæfðrar lyfjaframleiðslu og í skilvirkri dreifingu og markaðssetningu Invent Farma eru fólgin mikil verðmæti sem nýtast munu Domac og þar með hluthöfum beggja fyrirtækja,? segir hann í tilkynningunni.

Friðrik Steinn Kristjánsson, stjórnarformaður Invent Farma ehf., segir að með samstarfinu við Strides Arcolab um þróun og markaðsetningu á lyfjum hafi skapast nýir möguleikar í sölu á lyfjum fyrir sjúkrahús í Evrópu og víðar.