Fjárfestingafélagið Investor ehf. hefur keypt Kornið - handverksbakarí að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Kaupsamningur, sem tekur yfir allan rekstur bakarísins, vörumerki og útsölustaði, var undirritaður í upphafi árs en Investor tók við rekstrinum um síðustu mánaðarmót eftir að áreiðanleikakönnun hafði farið fram.

Kornið - handverksbakarí var stofnað árið 1981 og er því búið að baka ofan í landsmenn í hartnær 36 ár undir kjörorðunum „handverk í hávegum haft“. Baksturinn fer að mestu fram í Kópavogi.

Um 90 mann starfa hjá fyrirtækinu

Fyrirtækið rekur 12 bakarí / kaffihús á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum undir merkjunum Kornið, Fjarðarbakarí, Árbæjarbakarí og Köku Kompaníið. Hjá fyrirtækinu starfa alls um 90 starfsmenn.

Helga Kristín Jóhannsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hún er með B.S. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.S. gráðu frá IE Business School í Madrid.

Helga Kristín hefur undanfarin ár starfað sem sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá PwC og áður m.a. sem vörustjóri SensorX hjá Marel og sérfræðingur á gæðasviði hjá Nóa Síríus.

Markmið nýrra eigenda snúa helst að uppbyggingu fyrirtækisins með áherslu á gæði og þjónustu. Reksturinn hefur gengið vel og til að byrja með verður hann áfram með svipuðu sniði en búast má við að viðskiptavinir verði varir við áherslubreytingar með haustinu.