*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 20. nóvember 2011 08:00

Tvö félög Investum í þrot

Fjárfestingarfélagið Investum Management ehf. og Investum Properties hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Ritstjórn

Fjárfestingarfélagið Investum Management ehf. og Investum Properties hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta. Skiptum á fyrrnefnda félaginu lauk undir lok síðasta sumars og fékkst ekkert upp í um 94,5 milljóna króna kröfur. Investum Properties var úrskurðað gjaldþrota í byrjun október. Nöfnum félaganna var breytt skömmu fyrir gjaldþrot þeirra, í 431007 ehf. og 630508 ehf. Félagið Investum veitir ráðgjöf á sviði viðskipta. Þriðja kennitala tengd Investum er frá árinu 2009. Það er félagið Investum Holding 2009, sem er enn starfandi samkvæmt ársreikningaskrá.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að eigendur Investum eru Sigurður Hrafn Kiernan (40%), Brandur Thor Ludwig (40%) og Guðmundur Björn Árnason (20%). Hinir tveir síðarnefndu starfa í dag hjá Reviva Capital í Lúxemborg. Það félag annast umsýslu og rekstur eignasafns Glitnis í Lúx. Sigurður Hrafn er framkvæmdastjóri Investum Holding. Félagið hefur skilað ársreikningi fyrir árið 2009 og var starfsemin á því ári lítil. Sigurður Hrafn hefur ekki svarað fyrirspurn Viðskiptablaðsins hvort Investum sé hætt starfsemi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Investum