Sænska fjármálafyrirtækið Invik birti fjórðungsuppgjör sitt í lok apríl. Fyrirtækið skilaði hagnaði upp á 1,1 milljarð sænskra króna, eða um 14 milljörðum íslenskra króna.

Invik er dótturfyrirtæki íslenska fjárfestingafélagsins Milestone og starfar á sviði trygginga, bankastarfsemi og eignastýringar. Í upphafi árs voru allar íslenskar eignir Milestone færðar undir Invik, þar á meðal Sjóvá, Askar Capital og Avant.

Forstjóri Invik er Anders Fällman. Hann segist mjög sáttur við uppgjör fyrirtækisins, sérstaklega í ljósi erfiðra aðstæðna í alþjóðlegu efnahagslífi.

„Við erum með fjölda fjárfestinga og fyrirtækja á Norðurlöndum og annars staðar sem hafa skilað góðum árangri. Vöxtur okkur hefur einnig verið nokkuð stöðugur undanfarið samfara góðum rekstri fyrirtækjanna. Þess ber líka að geta að áhrif gengisþróunar skipti miklu máli varðandi gott uppgjör okkar,” segir Fällman

Stærstur hluti starfsemi Invik í dag fellur undir tryggingastarfsemi og verður það áfram í nánustu framtíð að sögn Fällman .

„Við ætlum okkur áfram að leggja áherslu á sylluvörur. Við erum þessa dagana að styrkja stöðu okkar í Noregi þar sem við erum að hefja starfsemi. Ég sé fyrir mér að á næstu tveimur árum muni tryggingastarfsemi okkar ná mun meiri útbreiðslu á Norðurlöndum.”

Fällman segir Invik hafi skilgreint sig þannig að fjármálaþjónusta sé sú grein sem það ætli að starfa í. Því sé fyrirtækið byggt upp á þremur afkomusviðum, tryggingaþjónustu, bankastarfsemi og eignastýringu.

„Við lítum á okkur sem ögrandi fyrirtæki. Við ögrum mörkuðum og fyrirtækjum sem starfa þar fyrir. Við erum yfirleitt í samkeppni við stóra banka og tryggingafélög. Við erum alltaf að skoða hvaða vörur við getum selt og þjónustað betur en önnur fyrirtæki.”

Hann leggur þó ríka áherslu á sjálfstæði þeirra félaga sem starfa undir Invik. Þannig fái fyrirtækin að starfa áfram undir eigin nöfnum en verði ekki sameinuð.

„Við lítum á okkur sem frumkvöðlafyrirtæki. Hugmyndin er sú að við viljum leyfa öflugum hópi stjórnenda að byggja upp þessi fyrirtæki undir stefnu okkar og framtíðarsýn. Þannig höfum við skilgreint okkur og því munu t.d. Sjóvá og Askar Capital starfa áfram í óbreyttri mynd,” segir Fällman.

_____________________________________

Nánar er fjallað um Invik í viðtali við Anders Fällman, forstjóra fyrirtækisins, í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.