ION Hótel ehf. hefur fest kaup á Banklialp hótelinu í Engelberg í Sviss en markmiðið er að umbreyta núverandi hóteli í nútímalegt hönnunar hótel í anda ION Adventure á Nesjavöllum og ION City í Reykjavík á næstu misserum. Svissneskir hönnuðir hafa þegar hafið vinnu við breytingar á hótelinu en markmiðið er að opna 50 herbergja hönnunar hótel haustið 2020. Svissneskir fjárfestar munu koma að fjármögnun verkefnisins.

Framkvæmdastjóri félagsins, Sigurlaug Sverrisdóttir segir að opnun á hóteli erlendis sé eðlilegt og rökrétt næsta skref í þróun ION Hótel keðjunnar. Rekstur ION Hótela og dótturfélaga hefur vaxið hratt á undanförnum árum samhliða vexti í íslenskri ferðaþjónustu en tengd rekstrarfélög eru ION Veitingar, sem reka veitingastaðina Sumac, ÓX og Silfru, ION fishing sem selja veiðileyfi í landi OR við Þingvallavatn, Opal apartments sem selja gistingu í 8 lúxusíbúðum við Laugaveg og nú Banklialp GmbH sem er 30 herbergja 3ja stjörnu hótel í Engelberg. Með því að taka yfir rekstur erlendis fæst tækifæri til að nýta reynslu og þekkingu sem hefur byggst upp á undanförnum árum.

„Á síðustu árum höfum við tekið markviss skref í að stækka og auka hagkvæmni rekstrar ION Hótela. Við höfum fengið marga sterka stjórnendur til liðs við okkur og rekstur bæði hótela og veitingadeildar hefur bæði styrkst og eflst. Við erum því mjög spennt fyrir næsta skrefi í þróun á fyrirtæki okkar með því frábæra starfsfólki sem kemur að verkefnunum. Við teljum að við höfum margt fram að færa og erum hvergi smeik þrátt fyrir að við séum að hasla okkur völl á mjög þroskuðum markaði þar sem ríkt hefur mikil samkeppni um árabil. Markmið okkar er að halda áfram að byggja upp sterkt vörumerki sem verður kynnt á alþjóðlegum markaði," segir Sigurlaug.