*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 16. júní 2018 18:01

iOS 12

Næsta útgáfa iOS, stýrikerfis iPhone snjallsíma Apple (og iPad líka), var kynnt í liðinni viku.

Andrés Magnússon
epa

Næsta útgáfa iOS, stýrikerfis iPhone snjallsíma Apple (og iPad líka), var kynnt í liðinni viku, en eins og flestir bjuggust við er mest áhersla lögð á að auka hraðvirkni og stöðugleika þess. iOS 12 inniheldur þó einnig margvíslegar betrumbætur og nýja kosti og það má ráða margt um það á hvaða leið Apple telur snjallsímabyltinguna vera á næstu árum.

iOS 12 var kynnt í upphafi árlegrar forritararáðstefnu Apple (Worldwide Developers Conference – WWDC) í liðinni viku. Um leið var opnað á tilraunaútgáfu (betu) iOS 12 fyrir skráða forritara (hún er býsna stöðug), en gert er ráð fyrir að almenningur fái aðgang að tilraunaútgáfu síðar í mánuðinum. Fullgert mun stýrikerfið svo koma út í haust.

Apple stærir sig af því að koma reglubundum uppfærslum hratt og vel út til notenda, þannig að nú er t.d. 81% hins liðlega milljarðs iPhone-notenda með iOS 11, en til samanburðar eru aðeins um 6% Android-notenda með síðustu útgáfu (Android 8 Oreo). Það skiptir forritara og hugbúnaðarhús miklu að geta gengið að því vísu, að þorri notenda sé með sömu útgáfu stýrikerfisins, sömu notendaskil og fídusa, í stað þess að þurfa að taka tillit til ótal gamalla útgáfa.

Aftur á móti eru notendurnir með misgamla síma, sem geta misvel nýtt sér alla þessa kosti, en Craig Federighi, sem stýrir hugbúnaðarþróun Apple, fullvissaði forritarana um að næsta útgáfa stýrikerfisins myndi virka aftur til iPhone 5s og raunar væri sérstök áhersla lögð á að hún virkaði vel á eldri símum. Tók hann sem dæmi að undir iOS 12 myndi iPhone 6 ræsa forrit 40% hraðar en fyrr, kalla fram hnappaborðið 50% hraðar og myndavélina 70% hraðar, þannig að notendur fyndu fyrir umtalsverðri breytingu, rafhlaðan myndi endast lengur og líftími símanna lengjast.

Apple boðaði margvíslegar nýjungar, en einna mest áhersla var lögð á aukveruleika (e. Augmented Reality – AR), en Apple hefur nú þegar mikið forskot í markaðshlutdeild hans með iOS notendunum öllum, bæði á iPhone, iPad, auk ýmissa jaðartækja annarra framleiðenda. Helsta nýjungin á því sviði er ný sameinuð skrárgerð til þess að lýsa hlutum í aukveruleika, en hún var þróuð af Apple í félagi við Pixar og Adobe.

Ýmsar nýjar kúnstir voru boðaðar hjá Siri, hinni stafrænu hjálparhellu iPhone. Hins vegar söknuðu margir þess að frekari framtíðaráform varðandi Siri og gervigreind voru ekki kynnt. Siri þykir hafa dregist aftur úr Alexu frá Amazon og Google Assistant að mörgu leyti, þó að vísu sé fyrirsjáanlegt að Alexa nái að óbreyttu ekki mikið meiri þroska.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn  Tölublöð.