Apple kynnti í gær næstu kynslóð spjaldtölvunnar iPad. Hún kemur á markað vestanhafs á föstudag í næstu viku, en á Íslandi verður hún fáanleg föstudaginn 25. mars. Þessi nýja gerð spjaldtölvunnar vinsælu er einfaldlega nefnd iPad 2, en meðal helstu nýjunga eru innbyggðar myndavélar og mun hraðari örgjörvar. Þá er iPad 2 þriðjungi þynnri en forverinn og allnokkru léttari, aðeins 600 g. Hún mun bæði fást í svörtu sem fyrr og í hvítu og verðið er óbreytt.

Athygli vakti að það var forstjórinn Steve Jobs, sem kynnti nýju vélina, en hann er í veikindaleyfi og hafa orðrómar gengið um að hann sé við dauðans dyr. Ekki var þó á Jobs að sjá að hann væri dauður úr öllum æðum, en þessi goðsagnakenndi forstjóri er jafnan í essinu sínu uppi á sviði á kynningum sem þessum.

„Meira en 15 milljónir iPad-tölva hafa þegar verið seldar, svo iPad hefur náð að skilgreina nýja gerð fartækja,“ var meðal þess er Jobs hafði að segja á kynningunni. „Meðan aðrir framleiðendur hafa keppst við að stæla iPad erum við að hleypa iPad 2 af stokkunum, sem fer langt fram úr þeim og mun sjálfsagt reka þá aftur að teikniborðinu,“ bætti hann við af alkunnu lítillæti.

iPad 2 er sem fyrr segir með innbyggðum myndavélum, einni sem veit að notandum og hinni á bakhliðinni. Sú á bakhliðinni getur tekið myndskeið í HD-gæðum, en að líkindum þykir mönnum meiri akkur í þeirri að framan. Skjárinn er óbreyttur, en nýja spjaldtölvan er bæði þynnri og léttari en sú fyrri og segja þeir, sem hafa handleikið hana, að þar á sé verulegur munur. Þá er nýr örgjörvi í vélinni, sem er tvöfalt hraðvirkari en sá fyrri í almennri vinnslu, en allt að níu sinnum hraðvirkari í skjáteikningu. Það mun væntanlega styrkja iPad enn frekar sem leikjatölvu.

Apple segir að verkfræðingum þess hafi tekist að betrumbæta iPad verulega en án þess að gefa nokkuð eftir af þeim höfuðkostum, sem prýddu fyrri kynslóð. Rafhlaðan endist þannig áfram í tíu tíma í fullri notkun, sem þykir vel af sér vikið í ljósi þess að iPad 2 er þriðjungi minni en sú fyrri. iPad 2 er með þráðlausu neti og hana má einnig fá með 3G tengingu, sem inniheldur GPS staðsetningarbúnað að auki. Þá er skjáúttak á iPad 2, sem þýðir að hana má tengja við sjónvörp eða skjávarpa til þess að sýna kynningar. Af því og ýmsum öðrum breytingum merkja menn að Apple vilji auka veg iPad í viðskiptalífi og skólum.

iPad 2 tekur samkeppninni ekki verulega langt fram, þegar litið er á tæknilýsinguna, en það var iPad sem ruddi brautina og er með liðlega 90% markaðshlutdeild í sínum flokki. Fyrir hinn almenna neytanda þarf samkeppnin því að hafa eitthvað verulega sérstakt að bjóða til þess að hann kaupi ekki iPad. Til þessa hefur það ekki tekist og það segir máske sína sögu að iPad kostar minna en samkeppnin.

Apple gerir ráð fyrir að selja ríflega 6 milljónir eintaka af iPad 2 á fyrsta fjórðungi ársins, en fyrirtækið þykir yfirleitt íhaldssamt í yfirlýsingum af því taginu. Hlutabréf Apple (NASDAQ:AAPL) hafa ekki fundið fyrir efnahagsóvissu undanfarinna ára og stendur nú í liðlega $350.