Apple hefur sótt um einkaleyfi á nýjum öryggisbúnaði fyrir farsíma. Öryggisbúnaðurinn er nokkuð óvenjulegur, en hann hlustar á hjartslátt eiganda símans eða þekkir andlit hans. Þá á búnaðurinn að geta brugðist við ef hann endar í höndum óprúttna aðila.

Í frétt Reuters fréttastofunnar um einkaleyfi Apple segir að fyrirtækið hafi lagt fram beiðni um leyfið í febrúar síðastliðnum. Það var síðan gert opinbert nú í mánuðinum. Í því er útskýrt nokkrar ólíkar aðgerðir sem sími fyrirtækisins, iPhone, á að geta gripið til ef annar en eigandi símans er að nota hann. Síminn á að þekkja rödd eigandans, andlit hans eða hjartslátt.

Þá á iPhone framtíðarinnar að geta gripið til ýmissa aðgerða ef honum er stolið. Mögulegar aðgerðir við stuldri eru takmarkanir á notkun, söfnun upplýsinga um þjófinn eða að síminn hreinlega slökkvi á sér.

Ein aðferðanna til að athuga hvort símanum hafi verið stolið, og lýst er í einkaleyfinu, er sú að athuga hvort eitthvað hafi verið gert við hugbúnað símans (e. hacked). Segir í frétt Reuters að algengt sé að símaþjófar breyti hugbúnaði til að komast framhjá öryggisvegg símans.

Gert til að njósna um notendur

Áætlanir Apple valda blaðamanni Reuters nokkrum áhyggjum. Hann telur að með þessum hætti geti Apple njósnað um notendur iPhone og refsað þeim sem hafa brotið öryggisvegg hans. Nokkuð algengt er að slíkt sé gert, þó síminn hafi verið keyptur á löglegan hátt.

Ekki kemur fram í fréttinni hvenær notendur megi búast við að iPhone-farsíminn verði svo tæknilegur.