Venesúela í Suður-Ameríku glímir nú við mikla efnahagserfiðleika í kjölfar lækkunar olíuverðs og hefur verð á mörgum vörum rokið upp úr öllu valdi.

Ástandið er orðið svo slæmt að ef miðað er við hið opinbera gengi þarlends gjaldmiðils kostar iPhone 6 snjallsími meira en 47.000 dollara, eða 6,1 milljón íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Vandamálið er tvískipt; annars vegar er gríðarlegur skortur á flottustu snjallsímunum og ýmsum öðrum vörum á landsvísu. Í öðru lagi er verðbólgan með því meira sem íbúar Venesúela hafa nokkurn tíma kynnst.

Flókið er að greina nákvæmlega frá því hversu mikil vandræði þessarar Suður-Ameríkuþjóðar eru, en ástandið er þannig að venesúelski bólívarinn hefur tvö opinber gengi gagnvart Bandaríkjadal, 6.3 og 12 bólívara fyrir hvern dollara. Stjórnvöld nota þetta gengi til að reikna út kaupverð á ýmsum nauðsynjavörum.

Bólívarinn umtalsvert ódýrari á svörtum markaði

Verð bólívarsins hefur hins vegar hríðfallið á svarta markaðnum og þar eru um það bil 456 bólívarar í hverjum Bandaríkjadal. Það er í raun þess vegna sem verð á iPhone snjallsímum verður svo stjarnfræðilega hátt þegar notast er við opinber gengi.

Miðlungs snjallsími í Venesúela kostar um 17.000 bólívara, sem jafngildir rúmlega tveggja mánaða lágmarkslaunum. Vilji íbúi þar í landi hins vegar fá sér iPhone 6 þarf hann að reiða fram 300.000 bólívara. Á lægsta opinbera genginu samsvarar það 47,619 Bandaríkjadölum. Á svarta markaðsverði jafngildir þetta hins vegar einungis 657 dollurum, sem er talsvert nær eðlilegu verði.

Þá hefur þjófnaður á snjallsímum í Venesúela rokið upp vegna lélegrar birgðastöðu og síhækkandi verðs. Sagði einn íbúi þar í landi við Bloomberg að ef einstaklingur ætti flottan síma og dirfðist að sýna hann á götum úti, þá væri honum stolið.