Vegur iPhone símans fer sífelt vaxandi í Bandaríkjum Norður Ameríku. Sala hefur aukist mjög á símanum og vegur hann nú að BlackBerry sem hefur verið ráðandi á sviði lófatölvufarsíma.

Flest fyrirtæki hafa valið BlackBerry fyrir starfsmenn sína og hefur BlackBerry því náð ansi góðri rótfestu vestanhafs. IPhone sækir þó í sig veðrið og kemur sterkur inn meðal starfsmanna minni og meðalstórra fyrirtæka.

Talið er að um 15 til 20% þeirra sem kaupi iPhone sé fólk sem starfi í viðskiptum.

Reuters greinir frá þessu.

Apple tölvurisinn framleiðir iPhone. Alls seldust um 6,9 milljón slíkir símar á síðasta ársfjórðungi. Til samanburðar þá seldurst 6,1 milljón BlackBerry síma á tímabilinu.

Nýlega tilkynntu stórfyrirtækin Genetech, Nike og Walt Disney að þau hyggðust styðja iPhone og völdu slíka síma fyrir starfsmenn sína.