Tæknirisinn Apple hagnaðist um 10 milljarða Bandaríkjadala á síðasta ársfjórðungi og tekjur félagsins námu 53,8 milljörðum dala. Aukin velta þjónustu og aukahluta bætti upp fyrir fallandi sölutölur iPhone. Financial Times segir frá .

Afkoman var betri en spáð hafði verið þrátt fyrir 12,8% lækkun hagnaðar milli ára, og afkomuspá félagsins fyrir yfirstandandi fjórðung var uppfærð upp á við. Þykir það benda til þess að tæknirisinn sé vongóður um velgengni nýrra vara sem kynntar verða í næsta mánuði, meðal annars streymisveitu fyrir myndefni, tölvuleikjaþjónustu, og frumraun fyrirtækisins á sviði kreditkorta.

Hlutabréf félagsins hækkuðu um rúm 4% á eftirmarkaði í kjölfar tilkynningarinnar. Ef ekki er tekið tillit til sölutalna iPhone-símans, sem hafa farið fallandi, óx fyrirtækið um 17%, að sögn fjármálastjóra þess.

Sala iPhone-síma stóð undir 26 milljörðum dala af tekjum síðasta fjórðungs, rétt tæpum helming, en það hlutfall hefur ekki verið jafn lágt síðan 2012. Á móti jukust tekjur af veittri þjónustu um 13% og námu 11,5 milljörðum dala, og tekjur af aukahlutum á borð við snjallúr og heyrnatól (e. wearables) jukust um 48% og námu 5,5 milljörðum dala.