Fyrirtækið iPlús hefur verið sameinað vefauglýsingafyrirtækinu Birtu undir nafninu Netleiðir. Samhliða þessum breytingum hefur Klak ehf. selt hlut sinn í félaginu og Viktor Ólason, fyrrum framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar og markaðsstjóri hjá Norðurljósum, tekur við sem framkvæmdastjóri sameinaðs fyrirtækis. Með þessari sameiningu verður til öflugt fyrirtæki þar hægt er að fá alla þjónustu er varðar markaðssetningu á og með Netinu.

Að sögn Viktors er stefnan að þróa áfram hugmyndir sem nýta styrkleika beggja fyrirtækja. "Við sjáum möguleika í að stækka þennan 50 þúsund manna hóp, sem iPlús hefur verið að vinna með, og brjóta hann niður í marga virka hópa. Síðan höfum við mikla trú á könnunarhlutanum, að menn geti notað þessi tæki og gert fleiri kannanir, t.d. að prófa umbúðir gagnvart viðskiptavinum, gera starfsmannakannanir, þjónustukannanir o.s.frv. Við munum halda áfram að gera hefðbundnar spurningavagnskannanir, sem könnunarfyrirtækin hafa verið að gera, á mun hraðari og ódýrari hátt, og svo líka að opna dyrnar fyrir aðra sem hafa einfaldlega ekki haft efni á könnunum vegna þess hve dýrt þetta hefur verið fram til þessa. Við erum frekar milliliður en sérfræðingar í að gera kannanir eða að spyrja spurninganna. Við ætlumst til að viðskiptavinir okkar hafi þá þekkingu en við getum komið með skjót og örugg svör. Við höfum gert kannanir samhliða IMG Gallup könnunum og ParX og höfum fengið samsvarandi niðurstöður en erum að skila á nokkrum klukkutímum nokkur þúsund svörum," segir Viktor í frétt á heimasíðu Klaks.