Spilarinn iPod nano er ekki útvarpstæki heldur afspilunartæki samkvæmt tollalögum, samkvæmt dómniðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur í gær. Tollurinn hafði áður flokkað iPod nano sem útvarp og lagt gjöld á tæki í samræmi við það. Tollaflokkun tækisins var breytt árið 2011 og lækkaði þá verðið um þriðjung, þ.e. fór úr um 45 þúsund krónum í um 30 þúsund krónur.

Málið er liður í málaferlum félagsins Skakkiturn á hendur íslenska ríkinu til endurgreiðslu oftekinna gjalda vegna meintrar rangrar flokkunar á iPod Touch og iPod nano. Skakkiturn krefst þess að fá endurgreidda samtölu allra þeirra almennu tolla og vörugjalda sem greidd hafa verið af tækjunum. Málið tengt iPod Touch er enn fyrir dómi.

Skakkiturn ehf. á og rekur Apple VAD á Íslandi í upboði Apple Computer Inc. í Bandaríkjunum.

Málið hefur staðið lengi yfir en í Viðskiptablaðinu í fyrra sagði að Skakkiturn hafi lengi deilt við tollstjóraembættið um tollflokkun iPod Touch tölvunnar. Þann tíunda ágúst í fyrra hafi Hæstiréttur staðfest úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni Skakkaturns um dómkvaðningu matsmanns til að meta hvort iPod touch uppfylli skilyrði til tollflokkunar sem gagnavinnsluvél.