Stjórnvöld í Írak hafa skrifað undir bráðabirgðasamning við bandaríska fyrirtækið General Electric og hið þýska Siemens. Samningurinn varðar kaup írakska ríkisins á búnaði frá fyrirtækjunum sem ætlað er að tvöfalda rafmagnsframleiðslu þjóðarinnar.

Reuters fréttaveitan hefur það eftir Karim Waheed, orkumálaráðherra Íraks, að samningurinn milli Íraks og General Electric, Siemens auk eins annars fyrirtækis, hjlóði upp á sjö til átta milljarða bandaríkjadali.

Rafmagn hefur verið af skornum skammti í Írak undanfarin ár enda hefur stríðsástand lengi verið í landinu. Ástandið í Bagdad, höfuðborg Íraks, er t.d. mjög slæmt en rafmagn er aðeins fáanlegt í nokkra tíma á degi hverjum.

Írakar binda því miklar vonir við hina nýju samninga en þeir eru taldir gríðarlega mikilvægir fyrir uppbyggingu hins stríðshrjáða lands.

Vonir standa til þess að rafmagnsvandamál Íraks verði að mestu komin í lag árið 2012.