Nouri al-Maliki forsætisráðherra Íraks biðlaði í gær til erlendra sérfræðinga um að aðstoða Írana við að byggja á ný upp olíuiðnaðinn í landinu eftir áratuga stríðsátök. Sagði hann landið þurfa að endurskoða lagaumhverfið til að hvetja til erlendra fjárfestinga í landinu.

„Við erum í kapphlaupi við tímann á hverjum einasta degi sem dregst að endurreisa olíuiðnaðinn og við missum af tækifærum til þróunar,” sagði Nouri al-Maliki í samtali við AP fréttastofuna.

„Af því að við erum háð einni tekjulind, þá höfum við enga aðra kosti en að auka okkar olíuframleiðslu og útflutning til að eiga möguleika til þróunar í öðrum greinum.”

Sagði hann Írak hafa orðið illa fyrir barðinu á verðlækkunum á olíu undanfarna mánuði. Innistæður á olíureikningi Íraka hafi fallið um 90% síðan í fyrrasumar. Þetta hafi leitt til þess að ríkisstjórn landsins hafi í tvígang Þurft að skera niður útgjöld ríkisins.