Boeing Co. fékk nýlega leyfi frá Bandarískum yfirvöldum til þess að selja þotur til Iran Air. Fyrirtækið hefur ekki selt þotu til Irans í tæplega 40 ár, eða frá árinu 1977. Samningurinn sem flugvélaframleiðandinn vinnur að við flugfélagið, er gífurlega mikilvægur. Flugfélagið sækist nefnilega eftir 109 þotum.

Árið 1977 voru 747 breiðþotur seldar til landsins, en tveimur árum síðar braust út bylting, sem hafði veruleg áhrif á samskipti Irans við vesturlönd. Líklegt er að flugfélagið vilji festa kaup á 747, 777 og 777x þotum. Viðskiptin gætu numið a.m.k. 17,6 milljörðum Bandaríkjadala.

Bandaríska þingið er þó ekki alsælt með viðskiptin og hafa sumir þingmenn lagt til að stöðva viðskiptin. Boeing er einnig að taka umtalsverða áhættu, þar sem stutt er í kosningar og nýr forseti gæti hert viðskiptahömlur landanna.