Nefnd á vegum stjórnvalda í Íran hefur kallað eftir því að takmörk verði sett á spilun snjallsímaleiksins Clash of Clans. Vísar nefndin, sem á að hafa eftirlit með netmiðlum, til skýrslu frá sálfræðingum sem segir leikinn hvetja til ofbeldis og ættbálkaátaka.

Leikurinn var einnig sagður geta haft slæm áhrif á fjölskyldulíf, ef unglingar yrðu háðir leiknum. Snemma á síðasta ári komu fram tölfræðigögn sem sýndu að 64% þeirra sem spiluðu tölvuleiki á snjallsímum sínum í landinu spiluðu leikinn.

Í kjölfarið birtust fréttir af því að margir leikmenn hefðu lent í vandræðum með að nálgast leikinn, en hann byggir á því að spilarar séu í netsambandi. Hafa birst fréttir um að aldurstakmarkanir verði settir á spilun leiksins þar sem unglingum verði bannað að spila hann.

Leikurinn sem framleiddur er af finnska fyrirtækinu Supercell, hefur náð miklum vinsældum um allan heim, og tilkynnti fyrirtækið nýlega að 100 milljón manns spiluðu leikinn á degi hverjum.

Í leiknum stofna leikendur þorp og nota síðan herlið til að vernda þau og gera árásir á byggðir annarra. Í júlí keypti kínverska fyrirtækið Tencent 84,3% hlut í Supercell á verði sem verðmat fyrirtækið á 10,2 milljarða Bandaríkjadala, eða 1.161 milljarður króna.