Íran hefur skrifað undir samning við flugvélaframleiðandann Airbus um að kaupa 118 Airbus flugvélar fyrir samtals 22 milljarða evra, andvirði um 3.100 milljarða króna. Samningurinn var undirritaður meðan á heimsókn forseta Írans til Frakklands stóð og er einn sá stærsti sem gerður hefur verið frá því að efnahagsþvingunum vesturveldanna á Íran var aflétt.

Meðal þeirra flugvéla sem keyptar verða eru 12 A380 risaflugvélar og segir í frétt BBC að sá hluti samningsins skipti Airbus verulegu máli. Airbus hafi gengið illa að sannfæra flugfélög um að hagkvæmt sé að kaupa vélarnar, sem eru stærstu farþegavélar heimsins.

Skilyrði fyrir því að samningurinn gangi í gegn er að Airbus fái útflutningsleyfi frá bandarískum yfirvöldum, en um 10% af íhlutum flugvélanna eru framleiddar í Bandaríkjunum.