Íran segist hafa náð samkomulagi um að kaupa flugvélar frá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing.

Einn elsti og hættulegasti flugfloti heims

Tilkynnti Abbas Akhoundi, samgöngumálaráðherra Írans, þetta í gær en ef af þessu verður er um að ræða fyrstu meiriháttar viðskiptin milli bandarísks fyrirtækis og Írans síðan liðkað var fyrir refsiaðgerðum á landið í kjölfar þess að samningar náðust um kjarnorkuvopnaáætlun Írans.

Mun þetta hjálpa Íran við að uppfæra flugvélaflota sinn sem er einn sá elsti og hættulegasti í heiminum. Eftir áralangar refsiaðgerðir þarfnast landið hundruða nýrra flugvéla. Flugvélaframleiðandinn Airbus frá Evrópu hefur jafnframt tilkynnt um sölu á 118 vélum til íranska ríkisflugfélagsins.

Refsiaðgerðirnar enn við lýði

Þó samkomulag um kjarnorkumál Írans hafi náðst í janúar síðastliðnum þá þurfa kaupin á Boeing vélunum að fá samþykki bandaríska ríkisins. Liðkaði samkomulagið fyrir fjármála og olíuviðskiptum og leyfði sölu á flugvélum og varahlutum til landsins.

Áfram eru þó refsiaðgerðirnar til staðar sem banna bandarískum borgurum að fjárfesta beint í Íran og bannar það bönkum í Íran að vera í viðskiptum við bandarísk fjármálafyrirtæki. Jafnframt eru refsiaðgerðir sem ná yfir hernaðartækni, hryðjuverk og mannréttindi enn við lýði.