Utanríkisráðherra Írans, Manouchehr Mottaki, sagði í gær að Íranar myndu láta Bandaríkjamenn "iðrast" þess að hafa hneppt fimm landa sína í varðhald, en bandarísk stjórnvöld gruna þá um að hafa séð íröskum uppreisnarmönnum fyrir vopnum. Klerkastjórnin í Teheran heldur því hins vegar fram að mennirnir fimm hafi verið gestir íraskra stjórnvalda, sem hafa einnig kallað eftir því að þeim verði sleppt og Bandaríkjamenn greiði þeim skaðabætur.

Mottaki sagði að Íranar væru engu að síður reiðubúnir til að halda áfram viðræðum við bandarísk stjórnvöld um málefni Íraks, sem hófust í síðasta mánuði í Bagdad. Sá fundur markaði fyrstu stjórnmálasamskipti ríkjanna í 27 ár.