Mehdi Asali. fulltrúi Íran í OPEC segir að það sé órökrétt fyrir landið að taka þátt í framleiðsluþaki á olíu. Fjögur ríki, þar af þrjú innan OPEC komust að samkomulagi um framleiðsluþak í gær. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að ríkin fjögur, Sádí-Arabía, Katar, Venesúela og Rússland muni halda framleiðslu á olíu óbreyttri frá því sem hún var í janúar. Samkomulaginu er ætlað að styðja við hækkun olíuverðs, en lækkunin hefur haft slæm áhrif á efnahag þessara landa.

Samkomulagið var háð því að Írak og Íran myndu einnig fallast á sömu takmarkanir. Undanfarið hefur Írak aukið verulega við framleiðslu á olíu til að fjármagna hernað gegn íslamska ríkinu og Íran hefur einnig aukið við framleiðsluna í kjölfar þess að efnahagsþvingunum var aflétt af landinu.

Asali sagði að Íran myndi halda áfram að auka við framleiðsluna þar til að hún væri orðin jafn mikil og hún var áður en efnahagsþvinganir voru settar á landið.