*

fimmtudagur, 1. október 2020
Erlent 8. janúar 2020 09:39

Íranir létu reyna á hótanir Trump

Fjölda flugskeyta skotið á tvær herstöðvar sem hýsa bandaríska hermenn. Trump þegar valið 52 skotmörk í Íran.

Ritstjórn
Donald Trump forseti Bandaríkjanna á herflugvelli í Suður Kóreu, ásamt orrustuþotu, líkt og þeim sem voru við heræfingar í gær. Árið 2018 heimsótti Trump aðra af herstöðvunum tveim í Írak sem Íranir skutu á í nótt.
epa

Stjórnvöld í Íran hafa ekki látið sér segjast þrátt fyrir hótanir Donald Trump Bandaríkjaforseta um að ef um frekari hótanir eða árásir yrði að ræða myndu Bandaríkin bregðast hratt við og af mikilli hörku. Jafnvel þó að Bandaríkin hafi sýnt frá heræfingum með táknrænum 52 fullkomnum og þungvopnuðum orrustuflugvélum í fyrradag.

Létu Íranir sprengjuregni rigna í nótt yfir að minnsta kosti tvær herstöðvar í nágrannaríkinu Írak sem hýsa bandaríska hermenn, en enn eru um 5 þúsund bandarískir hermenn í landinu síðan það var frelsað undan stjórn Saddam Hussein. Samkvæmt frétt NBC fór Trump sjálfur í heimsókn á aðra af herstöðvunum árið 2018.

Í yfirlýsingu Pentagon segir að það sé skýrt að árásirnar hafi komið frá Íran, en ekki hefur komið fram hvort einhver skaði hafi verið af flugskeytunum. Trump sagði þó allt vera í lagi í tísti á samfélagsmiðlinum Twitter, sama stað og hann setti fram nákvæmar hótanir sínar, og að mat á skaðanum væri nú í gangi.

Höfðu stjórnvöld í Íran farið fram með miklum hótunum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði fyrirskipað drónaárás á einn valdamesta hershöfðingja landsins, oft sagður næstæðstur í stjórnkerfi landsisn á eftir Khameini erkiklerki, þegar hann var staddur á Baghdad flugvelli í Írak ásamt leiðtoga hersveita shia í því landi sem einnig lést í árásinni.

Íranir syrgðu dauða hershöfðingjans Qassam Soleimani síðustu daga og létust tugir manns í mannþröng í kringum jarðarför hans og mótmæli. Víða um Miðausturlönd hafa ýmsir hópar hins vegar fagnað því að hann hafi verið tekinn út.

Enda hafi hann í gegnum stjórn sína á Quds hersveitunum, sem eiga að breiða út íslömsku byltinguna með óhefðbundnum hernaði, borið ábyrgð á dauða og árásum víða um svæðið í samstarfi við sýrlensks stjórnvöld, Hizbollah, Hamas, Íslamska Jihad, Houthis hersveitirnar og fleiri vígasveitir shia hópa og bandamanna þeira.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafði Trump sett fram skýra hótun um árás á 52 skotmörk í Íran, ef Íranir létu af hótunum sínum og nú er væntanlega hans að taka næsta skref, en í fyrradag birtust jafnframt myndir af 52, sami fjöldi og bandarískir gíslar sem teknir voru í íslömsku byltingunni á sínum tíma, F-35 orrustuþotur að hefja sig á loft í heræfingum.