Líkur benda til þess að Íran muni þrýsta á önnur OPEC ríki til þess að takmarka afköst sín við olíuframleiðslu á fundi OPEC ríkja þann 9. september næstkomandi. Talið er að Íranir vilji með því koma í veg fyrir offramboð sem myndi verða til þess að olíuverð færi niður fyrir 100 Bandaríkjadali á tunnu.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu.

Bloomberg hefur það eftir fulltrúa Írana hjá OPEC að Íranir vonist til þess að þetta muni halda olíumarkaðnum í jafnvægi. Slæmt yrði ef olíuverð færi niður fyrir 100 Bandaríkjadali.

Verð á hráolíu hefur lækkað um 22 prósent síðan 11. júlí en þann dag náði verðið nýjum og áður óþekktum hæðum. Olíuverð var rúmir 115 Bandaríkjadalir á tunnu við lokun markaða á föstudag.