Í opnu bréfi sem 57 hagfræðingar skrifuðu til forseta Írans, Mahmoud Ahmadinejad, er efnahagsstefna ríkisstjórnar hans harðlega gagnrýnd fyrir að setja "velferð til skemmri tíma" í forgang í stað þess að móta raunverulega stefnu sem myndi skapa forsendur fyrir stöðugum og viðvarandi hagvexti í landinu til lengri tíma litið. Í staðinn hefur Ahmadinejad iðulega tekið þann pól í hæðina að ráðast fremur í illa undirbúin skammtímaverkefni til að skapa sér vinsældir og pólitískan stuðning á meðal almennings. Sumir hagfræðingarnir sem settu nafn sitt við bréfið gegndu háttsettum stöðum innan embættismannakerfisins í valdatíð forvera Ahmadinejad, Mohammad Khatami, sem var forseti Írans á árunum 1997 til 2005.

"Kostnaðurinn af því að framfylgja núverandi efnahagsstefnu - sem er ekki byggð á neinum vísindalegum grunni - hefur verið gríðarlega hár og er óafturkallanlegur", segir í bréfi hagfræðinganna. Þrátt fyrir að opinberar tölur segi að verðbólga hafi mælst 13,6% á síðasta ári þá efast margir stórlega - meðal annars hagfræðingarnar - um hversu áreiðanlegar þær tölur séu. Í frétt Financial Times í gær er greint frá því að það sé nær að halda því fram að verðbólga sé yfir tuttugu prósent, á meðan atvinnuleysi háskólamenntaðra er í kringum 25%.

Falsaðar hagtölur stjórnvalda
Í gagnrýni hagfræðinganna er sagt að ríkisstjórn Ahmadinejad hafi virt að vettugi öll einföldustu lögmál hagfræðinnar. Spá þeir því að ef ekki verði gerð breyting á núverandi efnahagsstefnu hennar muni það aðeins enda á einn veg; með alvarlegri efnahagskrísu. Á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC) segir að húsnæðisverð í Íran hafi næstum tvöfaldast í verði á síðasta ári, auk þess sem matarverð hækki umtalsvert í hverri viku. Hagfræðingarnar segja að í stað þess að birta rétta greiningu á efnahagsástandi landsins þá neiti stjórnvöld að horfast í augu við stærð vandans og birti fremur sínar eigin hagtölur, í því augnamiði að gefa upp skakka mynd af veruleikanum. Það hefur engu breytt - jafnvel gert ívið verra ef eitthvað er - þótt olíutekjur íranska ríkisins hafi aukist umtalsvert á undanförnum tveimur árum vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs.

Ráðamenn í Teheran hafa haldið því fram að í valdatíð Ahmadinejad hafi skapast tvær milljónir nýrra starfa. Hagfræðingarnar benda hins vegar á að öll þau störf hafi verið búin til með því að stjórnvöld hafi veitt almenningi niðurgreidd lán til að koma á fót litlum fyrirtækjum. Í frétt Financial Times segir að fjölmargir bankar í Íran hafi miklar áhyggjur af áætlun þarlendra stjórnvalda um að skylda bæði banka í eigu hins opinbera og einkabanka til að veita lán á alltof lágum vöxtum: Ahmadinejad hefur krafist þess að ríkisbankarnir lækki vexti sína úr 14% í 12% og að einkabankar lækki þá í sömu tölu úr 17%. Þessi vanhugsaða efnahagsstefna stjórnvalda hefur gert það að verkum að mikið af fjárfestum hefur kosið að setja fjármuni sína í fasteignir og gull, auk þess sem margir hverjir hafa einfaldlega tekið þá ákvörðun að flytja fjármagn sitt úr landi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.